Það kemur þér bara andskotann ekkert við

Áðan las ég frétt á vef Ríkisútvarpsins þar sem vitnað er til viðbragða Lönu del Rey við gagnrýni sem hún hefur fengið fyrir að syngja lög þar sem hún er sögð „upphefja ofbeldi“. Sem dæmi um slíka texta er nefnt lagið Ultraviolence og textabrotið: „He hit me and it felt like a kiss“. Þetta er tregafullt lag en þó ekki blús og verður ekki til umfjöllunar frekar hér. Það sem vakti hins vegar athygli blúsbloggarans voru lokaorð varnarræðu Lönu del Rey:

But I also feel it really paved the way for other women to stop \’putting on a happy face\’ and to just be able to say whatever the hell they wanted to in their music—unlike my experience where if I even expressed a note of sadness in my first two records I was deemed literally hysterical as though it was literally the 1920s.\”

Það var sem sagt þetta með bókstaflega þriðja áratuginn sem vakti athygli mína. Ég er svo sem vanur því að sjá ungt fólk trúa því að það hafi ekki náðst neinar raunverulegar framfarir í félagsmálum fyrren þau byrjuðu í háskóla og fóru sjálf að láta til sín taka – og man ágætlega hvernig það er að líða þannig. Sú óþolinmæði er forsenda margra framfara og ég lasta hana í sjálfu sér ekki. Íhaldssemi og frjálslyndi hafa samt að einhverju leyti alltaf sveiflast fram og til baka og það eru til tímar og staðir þar sem meira frjálslyndi ríkti en við almennt ímyndum okkur – jafnvel í fortíðinni. Oft horfir fólk þá til hippatímabilsins, sem ég held að sé nú talsvert ofmat, en á ábyggilega við einhver rök að styðjast. Ég hugsa oft sjálfur til Berlínar á þriðja áratugnum – þar sem t.d. fyrsta kynskiptiaðgerðin átti sér stað, og fólk lifði við mikið frjálsræði í kynferðismálum, það var allt morandi í sósíalistum og anarkistum og brjáluðum listamönnum. Þá voru tímar og staðir í kringum bítskáldin á fimmta og sjötta áratugnum – og lýsingar Gore Vidal á æsku sinni meðal auðuga og valdamikla fólksins (t.d. JFK) benda ekki til mikillar íhaldssemi.

Á flestum stöðum og á flestum tímum hafa þetta hins vegar verið átök og ekki sama hvort maður er Jón eða séra Jón eða svarti Jón eða Jóna o.s.frv.

Það sem komið hafði upp í huga minn þegar ég byrjaði að lesa þessa frétt var samt einmitt þriðji áratugurinn í bandarískri tónlist, áður en Lana fór að gera lítið úr honum – fyrst og fremst svartri tónlist og fyrst og fremst lagið Tain\’t Nobody\’s Business (If I Do). Auðvitað er einfaldlega fjarstæða að halda því fram að depurð í lagasmíðum hafi ekki átt upp á pallborðið á þriðja áratugnum – eða, maður verður þá allavega að tiltaka mjög nákvæmlega hvaða stað maður er að meina, kannski var depurð ekki í móð á bryggjuböllum á Siglufirði, ég veit það ekki – en það var mikið sungið um depurð og harm í deltunni og vaxandi stórborgum bæði í norðri og suðri Bandaríkjanna, og Tain\’t Nobody\’s Business er ágætis dæmi um það – og tilefni til að skoða sögu þess lítillega.

Þetta lag er einn af fyrstu blússtandördunum og var upphaflega skrifað á tvo píanóleikara, Porter Grainger og Everett Robbins og tekið upp með söngkonunni Önnu Meyers. Þema textans er frelsi ljóðmælanda til að gera hvað sem henni (stundum honum) sýnist. Þriggja línu erindi þar sem fyrstu tvær leggja upp aðstæður og sú þriðja er alltaf eins: það kemur þér bara andskotann ekkert við.

If I go to church on sunday and strutt my stuff on monday tain\’t nobody\’s business if I do. 

Eða

If I should take a notion to jump into the ocean tain\’t nobody\’s business if I do. 

Einsog var svo algengt þegar lög slógu í gegn var þetta svo tekið upp af annarri hverri söngkonu á næstu árum – þar á meðal Söru „the Famous Moanin\’ Mama“ Martin og Albertu Hunter. En þekktasta útgáfan frá þessu tímabili er án efa útgáfa Bessie Smith – sem er tregafyllri, minna einfalt stuðlag og hún nær einhvern veginn að miðla alvöru efnisins best. Að þetta er ekki alveg einfalt heldur margbrotið – frelsið er best en það er líka sárt og flókið og það er ekkert frelsi nema maður hafi réttinn til að gera alls konar vitleysu líka. Kannski var það líka fyrst þá sem fólk staldraði almennilega við eitt erindið (á wikipediusíðu lagsins er m.a.s. mjög greinilega gefið í skyn að Bessie hafi verið fyrst til að syngja þetta erindi, en það er alls ekki raunin):

I swear I won\’t call no copper if I get beat up by my poppa tain\’t nobody\’s business if I do.

Um þetta er margt að segja. Í fyrsta lagi að ofbeldi var daglegt brauð í í lífi þessa fólks. Þetta er alls ekki eina blúslagið sem fjallar um ofbeldi af þessari tegund og á þennan hátt – en það var raunar ekki síður algengt að konur syngju lög um að hefna sín á ótrúum mökum sínum. T.d. Sleep Talking Blues með Ma Rainey – þar sem maðurinn hennar missir út úr sér nafn ástkonu sinnar í svefni og vaknar aldrei aftur. Bessie átti líka frægt lag sem heitir Send Me To The \’Lectric Chair:

I love him so dear I cut him with my barlow I kicked him in the side I stood here laughing o\’er him While he wallowed around and died

Og eitt frægasta lag Memphis Minnie fjallar um einkabílstjóra sem hún heldur fyrir elskhuga: „But I don\’t want him / To be ridin\’ these girls / To be ridin\’ these girls around /So I\’m gonna steal me a pistol, shoot my chauffeur down.“

Og listinn yfir lög blúskarla um að skjóta konurnar sínar fyrir sams konar glæpi myndi fylla bók einn og sér – mörg þeirra eru miklu grófari. Frægast er kannski 22-20 Blues eftir Skip James eða Crow Jane – og þau eru allavega alls ekki færri en lög kvennanna. Ég man þó engin lög þar sem þeir syngja um að hafa verið barðir sjálfir. Það annars úir einfaldlega og grúir af ofbeldi í þessum lögum einsog það gerði í veruleika þessa fólks – þótt það sé lítið skrifað, ort eða sungið um ofbeldið sem blökkumenn urðu fyrir af hendi hvítra.

Því er reyndar gjarnan líka haldið fram, án þess að ég kunni að sannreyna það, að mörg þessara laga um að skjóta konurnar sínar séu dulbúin lög um plantekrueigendur – það sé í raun verið að syngja um þeirra svik og fá útrás fyrir ofbeldisþrá í þeirra garð, en þeim skipt út fyrir konurnar – því annað kostar bókstaflega hengingu, um það þarf ekki að efast – og það er áreiðanlega a.m.k. eitthvað til í því, en það á samt varla við í lögum einsog Tain\’t Nobody\’s Business.

Í öðru lagi hafa margir vitrir spekingar skrifað um þetta sem svartan húmor við svartar aðstæður – og það ber öllum sögum saman um það að þegar sungið var um kynlíf og ofbeldi á juke joint skemmtistöðunum í deltunni hafi fólk hlegið dátt. Þetta er upprunalega slappstikk – a.m.k. í og með. Sem þýðir ekki að það vísi ekki í raunverulega lífið – hættur fólks og áhyggjur og nevrósur. Það gerir svartur húmor alltaf.

Í þriðja lagi má hafa í huga að þessi lög eru skrifuð og sennilega að mestu leyti samin af körlum. Þegar ég segi að mestu leyti á ég ekki bara við að þeir hafi samið flest lögin heldur að það er bara ekki víst að þótt þeir séu skrifaðir fyrir þessum lögum hafi þeir samið þau og alls ekki að öllu leyti. Það var pínu tilviljanakennt hver var skrifaður fyrir hverju og margir sem reyndu jafnvel að skrá á sig alþekkta sálma – ekki af neinum óþokkaskap heldur vegna þess að þeir litu á sína útgáfu sem nýja og þannig frumsamda (sem er miklu eðlilegra viðhorf en við búum við í dag að mínu mati). Svo púsluðust lög saman þegar þau fluttust frá einni hljómsveit til annarrar. Engu að síður er mikilvægt að hafa í huga að söngkonur einsog Bessie Smith sungu ekki hvaða rusl sem var – og hún söng aldrei neitt án þess að meina það og gæða það nýrri merkingu. Hún var listamaður en ekki glymskratti og hún var þrátt fyrir tímann og aðstæðurnar ekki viljalaust peð. En lagið er samt líklega a.m.k. að stærstum hluta samið af tveimur körlum.

Um lagið og flutning Bessiear skrifaði Angela Davis meðal annars í Blues Legacies and Black Feminism:

Bessie Smith\’s recorded performance of Porter Grainger\’s \”Tain\’t Nobody\’s Bizness If I Do\”-a song also associated with Billie Holiday – is one of Smith\’s most widely known recordings. Like \”Outside of That,\”it has been interpreted as sanctioning female masochism. It is indeed extremely painful to hear Smith and Holiday sing the following verse so convincingly: [vitnar í sama og að ofan]. The lyrics of this song touched a chord in black women\’s lives that cannot be ignored. While it contradicts the prevailing stance in most of Bessie Smith\’s work, which emphasizes women\’s strength and equality, it certainly does not annul the latter\’s sincerity and authenticity. Moreover, the song\’ seeming acquiescence to battering occurs within a larger affirmation of women\’s rights as individuals to conduct themselves however they wish – however idiosyncratic their behavior might seem and regardless of the possible consequences.

Þegar ég las þetta á sínum tíma hugsaði ég líka talsvert út í merkingu þess að hringja í lögregluna. Á þessum tíma – og að nokkru leyti enn, einsog þekkt er – hafði svart fólk í Bandaríkjunum ekkert æðislega mikla ástæðu til þess að treysta því að það hefði mikið að segja að hringja í lögguna. Ekki veit ég hvað lögreglan í Clarksdale hefði sagt ef svört kona hefði hringt árið 1923 til þess að kvarta undan því að hún hefði verið slegin – ekki getur það hafa verið alveg út í hött, fyrst það er nefnt í laginu (á þeirri forsendu að það að hringja ekki sé eitthvað sem maður verði fyrir gagnrýni fyrir). Og kannski var það öðruvísi í Atlanta en í Clarksdale. En eitthvað segir mér að það hafi kannski ekki alltaf gert illt betra að hafa lögregluna með í ráðum og það felist ákveðin ógn í orðinu „copper“ sem sé ekki minni en í orðinu „poppa“.

Frank Stokes var líklega fyrsti karlinn til að syngja þetta lag – í köntríblúsútgáfu árið 1928. Þá er textinn mikið breyttur en það var líka alvanalegt að snúa textum upp á haus, bæta við einhverju frá eigin brjósti (og hefði verið algerlega fordæmalaust, held ég, að karl hefði sungið í orðastað konu). Lagið er reyndar líka svo mikið breytt að hann hefði alveg getað gefið það út sem sitt eigið – þetta er tólf bara blús sem ber keim af orginalnum en ekki mikið meira en það. Sennilega nýtti hann sér einfaldlega líkindin við vinsælt lag til að selja plötuna. Eða, og það er enn líklegra, var það bara útgefandinn – því Stokes syngur ekki einu sinni „if I do“ í viðlaginu heldur „nobody\’s business but mine“ sem hljómar nú meira einsog klassísk köntríblúsbreyting til að eigna sér lag. Þetta er svo sama útgáfa og Mississippi John Hurt gerði það gott með í blúsendurreisninni – og sú sem Woody Guthrie tók upp.

Einsog Angela nefnir tók Billie Holiday lagið svo upp síðar. Ég myndi nú segja að það væri minniháttar punktur á hennar mikla ferli. Jimmy Witherspoon átti hins vegar mikinn smell með þessu 1949 og syngur þá í fyrsta erindinu

Some of these days I\’m goin\’ crazy buy me a shotgun and shoot my baby ain\’t nobody\’s business if I do

Þessu erindi var nú svo yfirleitt bara sleppt – og Jimmy sleppti því held ég oft sjálfur live (einsog Lana sleppir barsmíðalínunni sem vitnað er til að ofan) – en það er mikill hræringur með textann og hann er svo sem ekki alltaf tandurhreinn miðað við þá standarda sem menn dæma texta Lönu del Rey (t.d. standard-erindi um að það komi engum við þótt maður sé eina stundina að rífast við skvísuna sína en þá næstu sé bara allt í góðu – ég held það kveiki á milljón viðvörunarbjöllum hjá hinum viðkvæmu, klassískt dæmi um narsissískan persónuleika og gaslýsingu!). Yfirleitt hefst hann núna á því sem áður var síðasta erindið:

If one day we have ham and bacon and the next day, there ain\’t nothin\’ shakin\’ ain\’t nobody\’s business if I do

Það eru svo auðvitað til ótal mismunandi útgáfur – enda myndi þetta varla annars reiknast sem standard. Otis Spann á útgáfu sem er alltílagi, BB King tók þetta upp í sínum stíl og svo aftur live-útgáfu með Ruth Brown, Hank Williams jr. gerði köntríútgáfu af Witherspoon versjóninni (án fyrsta erindisins) árið 1990, og svo framvegis og og svo framvegis. En ein fallegasta seinni-tíma útgáfan er án efa útgáfa Freddie King.

Svo er „ekki hægt að láta hjá líða“, einsog heitir, að nefna útgáfu Taj Mahal – sem er kannski ekki jafn falleg og hjá Freddie en skemmtilegri sem því nemur. Þar breytir hann líka fyrsta erindinu í:

Champagne don\’t drive me crazy cocaine don\’t make me lazy ain\’t nobody\’s business but my own

Sem er nú óneitanlega vinalegra.

Bónusútgáfa – af því það er svo erfitt að hætta þegar maður er byrjaður – er live-útgáfa BB King og Ruth Brown. Ekki bara af því þau eru einhvers konar heimsmeistarar í að vera krúttleg heldur líka af því þau eru svo skemmtileg gröð!

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png