Útskriftartónleikar TÍ, Father of the Bride, Hyldýpi, Princess Bride, jarðarför Kolbeins, Hatari/Eur

Menningarvikan byrjaði á útskriftartónleikum Tónlistarskóla Ísafjarðar. Þar er Aram að læra á trommur. Aino er í Listaskóla Rögnvaldar að læra á píanó – þeir tónleikar eru held ég á miðvikudaginn.

En allavega. Aram spilaði Hey Joe og stóð sig mjög vel – var farinn að bíta sig í vörina af fílingi um mitt lag. Það kom mér svo talsvert á óvart þegar í ljós kom, aðeins eftir að við komum heim, að hann var alveg ónýtur yfir þessu – fannst hann hafa klúðrað öllu og þetta væri bara allt ómögulegt. Ekkert var fjær sanni. Við þurftum að eiga langt samtal um hvernig það skipti máli að geta haldið áfram þrátt fyrir smávægilegar skissur – frekar en að frjósa t.d. – og hvernig það væri alltaf tilfinningin sem væri aðalatriði, að negla bítið og meina það, sem hann hefði gert alveg upp á tíu, og hann mætti vera stoltur af sjálfum sér að hafa náð þetta langt á tæpu ári – og ég væri alveg lifandis skelfingar stoltur af honum. Sem ég er. Hann fór beint upp í herbergi að tromma þegar við höfðum sagt allt sem við vildum segja og ég held það sé góðs viti um framhaldið.

Nú á helginni fóru þeir vinirnir – hann og Hálfdán Ingólfur og Þórður mennski Skúlason – út í bæ með gítara og potta og pönnur og gamla hatta frá mér til að böska og þénuðu nóg til að kaupa sér pizzasneiðar í hádegismat og setja afganginn (þrjú þúsund kall) í hljómsveitarsjóð.

Hann spilaði reyndar líka í tónsmiðju á tónleikunum – á Ukulele, You are my sunshine og Súrmjólk í hádeginu.

***

Ég hef eitthvað aðeins haldið áfram að hlusta á Father of the Bride og meðal annars komist að því að hún er betri í hátölurum en heddfónum. Útsetningarnar eru of pældar til að maður nenni að heyra alla díteilana – verður bara of mikið show off – og svo er röddin í Ezra Koenig ekki jafn óþolandi í hátölurum. Hann er með svona Crash-Test-Dummies, Counting-Crows rödd – það er alltaf einhver áferð þarna sem ég á mjög erfitt með að komast yfir. Ég er svolítið viðkvæmur með svona, viðurkenni það alveg – hef t.d. aldrei alveg getað tekið Chris Cornell í sátt, og er hann þó æskuídol.

Fín plata samt – góð í uppvaskið, matreiðsluna, en síðri til að ryksuga við (af því þá vill maður vera með heddfóna).

***

Ég hlustaði á útvarpsþættina Hyldýpi sem skrifstofunautur minn Halla Mia Ólafsdóttir og Birgir Olgeirsson, söngvari og blaðamaður frá Bolungarvík, gerðu fyrir RÚV. Þættirnir fjalla um óveðrið 4.-5. febrúar 1968 þegar á þriðja tug togara leituðu vars í Ísafjarðardjúpi. Þetta er eitt versta veður í manna minnum og tvö skip fórust en eitt strandaði. Lýsingarnar eru hrottalegar.

Þetta er einhvern veginn bæði svo kunnuglegur heimur og framandi í senn.  Ég ólst upp með pabba á sjó rúmum áratug eftir þetta og þótt ástandið hafi strax þá verið orðið nokkuð skárra – öryggismál í betri farveg og veðurspár nákvæmari – þá er tilfinningin eitthvað svo kunnugleg. Áhyggjur bæjarfélags af sjómönnunum sínum.

Þættirnir eru afar vel gerðir – Birgir og Halla nálgast söguna af virðingu og hlýju. Og þetta er líka mikilvægt starf – ég veit ekki hvort það er rétt að segja að maður streitist gegn minnisleysinu. Javier Cercas talar talsvert um muninn á minninu og sögunni í Impostor.

Memory is threatening to replace history in an era saturated with memory. This is bad news. Memory and history are notionally opposites: memory is individual, partial and subjective; history is collective and aspires to be comprehensive and objective. Memory and history are also complementary: history gives sense to memory; memory is a tool, an ingredient, a part of history. But memory is not history.

Og kannski er það einmitt það sem gerist í svona þáttum – sagan tekur við af minninu. Minnið er lagt fram og verður dokúment og dokúmentið verður mannkynssagan. Þetta er ómetanlegt starf.

***

Kvikmyndaklúbbur fjölskyldunnar horfði á Princess Bride. Ég var að sjá hana í fyrsta sinn og það var ég sem valdi (við skiptumst á). Hún var að mörgu leyti mjög skemmtileg – mikið af þekktum línum og mikið af skemmtilegri … kerskni, er það ekki orðið sem ég er að leita að? Sennilega hefði hún samt verið miklu betri ef nostalgían hefði verið með í för.

Mér finnst líka mjög leiðinlegt, og ég mjög leiðinlegur, að festast í hlutum einsog kynjahlutverkunum. Þau eru svolítið eitís, ef ekki hreinlega seventís. Mig langar að hefja mig yfir þetta – vera meðvitaður um það, en láta það ekki eyðileggja fyrir mér skemmtunina, söguna eða listina – en það sem sagt klúðrast stundum. Ég kenni góða fólkinu um. Og einhverri svona karlaskömm. Einsog ég sé persónulega að manspreada mig yfir kvikmyndasöguna.

***

Ég fór í jarðarför Kolbeins Einarssonar á laugardag. Þar var mikið grátið – söknuðurinn mikill, enda ógurlegur missir af Kolbeini. Ólýsanlegur. Tónlistaratriði voru til fyrirmyndar – kórinn var dásamlegur. Forspil og eftirspil voru Runaway eftir Kanye West, ofsalega fallegt. Högni Egilsson og Philip Barkhudarov sungu einsöng. Svo í lokin þegar átti að bera kistuna út – rétt fyrir eftirspil – kom eitthvað þekkt svona mariachi-lag (held ég) [uppfært: þetta var Derrick-lagið] á trompet, spilað af svölunum af Madis Mäekelle, og það var svo fullkomlega kolbeinskt, svo kjánalegt og óvænt og yndislegt, að maður fór einhvern veginn að flissa og gráta í senn.

Svo gekk maður út úr kirkjunni, beint í fangið á ærslabelgnum á sjúkrahústúninu, og lífið tók við af dauðanum. Ég stóð lengi nálægt kirkjunni, við sjómannastyttuna þar sem var búið að leggja kransa, og vissi ekkert hvern ég ætti að knúsa og langaði að knúsa alla en knúsaði á endanum ábyggilega mjög fáa og svolítið random bara. Mér finnst alltaf aðdáunarvert þegar fólk getur verið gjafmilt á hlýju sína – einsog mjög margir eru – ég festist alltaf í einhverjum þráhyggjuhugsunum um að vera ekki að þvælast fyrir.

***

Það er sennilega að bera í bakkafullan lækinn að segja eitthvað fleira um Hatara og Eurovision. En það var auðvitað stór menningarviðburður þessa vikuna – og kenndi margra grasa og margt var ágætt og annað óþolandi og sirkusinn alltaf skemmtilegur. Ég hef lengi verið málsvari Eurovision sem sameinandi afls í álfu sem lengst af gerði ekki annað en há stríð – sem endaði með helför, blitzkrieg, ógurlegum mannfórnum og svo stofnun Ísraelsríkis (í okkar boði).

Ég skrifaði strax um Eurovision í fyrra þegar Netta vann og var aldrei á því að sniðganga væri sérlega góð hugmynd, heldur væru mótmæli á staðnum mikilvægari. Eftirá að hyggja held ég að bæði hafi verið best – mótmæli innanhúss og utan. Samstaða þarf ekki að vera fólgin í því að allir geri sama hlutinn eins. En það eru nokkrir þættir í þessu sem hafa ekki verið ræddir, það ég hef séð.

Klemens Hannigan sagði í viðtali að fánarnir hefðu ekki verið bomban, heldur atriðið sjálft – „listin er alltaf bomban“. Þetta finnst mér kjarna eitthvað um það hvernig ég upplifi hljómsveitina. Að þau taka hlutverk sitt sem listamenn alvarlega – þau eru ekki lobbíistar sem hafa búið málstað sínum listrænan búning, heldur listamenn sem gera sér grein fyrir því að veröldin er pólitísk. Lagið er ekki gagnrýni á Ísrael í sjálfu sér – þótt vel megi heimfæra það á Ísrael eða málstað ísraelska ríkisins gagnvart Palestínu. Lagið fjallar um Evrópu – það er hún sem hrynur ef hatrið sigrar. Án samhengisins Eurovision í Tel Aviv finnst mér augljósi lesturinn (sem er ekki endilega sá eini eða sá eini rétti) vera uppgangur fasismans í álfunni – frá Ungverjalandi til Austurríkis, frá Miðflokknum til AFD.

Tengsl Ísraels við Palestínu er hins vegar dálítið einsog extrem útgáfan af pólitískum tengslum Evrópu við þriðja heiminn. Við lokum þriðja heiminn úti, búum þeim óþolandi aðstæður, lítum á þau sem aðeins minna en mennsk – ef við finndum indónesíska fataverksmiðju í úthverfi Parísar yrði allt vitlaust, en af því hún er bara í Indónesíu þá er það alltílagi (jafnt þótt fötin séu öll seld í París). Við svífumst líka einskis til að halda þeim úti, leggjum jafnvel stein í götu þeirra sem reyna að bjarga þeim frá drukknun í miðjarðarhafinu – við sendum þangað flugskeyti, aftökudróna, hermenn o.s.frv. án þess að hugsa mikið út í það –  og af og til heimsækja þau okkur með sprengjubelti. Og svo skreytum við okkur með dyggðum okkar – lýðræði, kærleika o.s.frv. – án þess að sjá í fullyrðingum okkar um eigin siðferðislegu yfirburði neinar mótsagnir.

Þessi tengsl eru ýktari í Ísrael af því þar er þessi þriðji heimur beinlínis á dyraþrepinu og það þarf sem því nemur meira ofbeldi til að halda honum úti. Þar hafa þeir ýtt þriðja heiminum – Palestínu – út í jaðrana einsog hverju öðru rusli, reist veggi og sett kúgunina á næsta level. En öll vestræn lönd stunda þetta í mismiklum mæli – meira og minna vélrænt og án umhugsunar, án meðlíðunar. Svallið hömlulaust, þynnkan endalaus – hatrið mun sigra.

***

Óáhugaverðasta samræðan sem hægt er að eiga um Eurovision er sennilega sú sem snýr að því hvort aktívismi Hatara hafi verið réttur eða í samræmi við vilja palestínska fólksins. Palestínumenn eru ekki – frekar en Ísraelar, reyndar – skilgreindur massi af samræmanlegum skoðunum heldur fólk með afstöðu hingað og þangað.

Mér finnst margt í reiða twitter bojkottliðinu minna mig á það sem ég þekki úr lestri mínum – sem ungur sósíalisti fyrir hartnær 20 árum – um sósíalismann 20 árum fyrr, í KSML og KSML (b) og EIK og MAÍ (ég safnaði kommatímaritum og -bókum og -stefnuskrám, á þetta í haugum einhvers staðar). Hugmyndin um verkamanninn var hinum raunverulegu verkamönnum yfirsterkari – sennilega var það mat sósíalistana að kenninguna þyrfti að verja, jafnvel þegar hún var í mótsögn við raunveruleikann. Ef „verkamaðurinn“ hlýddi ekki kenningunni var hann annað hvort rangur verkamaður – eða ekki nógu upplýstur um eigin stöðu í hinum díalektísku fræðum, vissi ekki hvað honum var fyrir bestu. Þannig virðist það trufla fólk að „palestínumaðurinn“ eða einu sinni „palestínski aktívistinn“ hafi ekki hreina afstöðu til menningarlegrar sniðgöngu – sé hreinlega ekki nógu kantískur. Viðstöðulaus smáborgaraskapur, eiginlega – og allir alltaf einsog einhver hafi skitið í þeirra prívat og persónulega deig, allir í keppni um það hver sé hreinastur í kenningunni, besti byltingarsinninn. Svona einsog þetta væri tölvuleikur.

Og Hataramálið reyndar minnir mig á greinaflokk sem birtist í Rödd Byltingarinnar, sem var sennilega tímarit MAÍ – í öllu falli var Albaníu-Valdi ritstjóri. Sá flokkur fjallaði um pönkið sem ópíum unga fólksins – hvernig pönksveitirnar beisluðu réttláta reiði ungra verkamanna en beindu henni svo í gagnslausan farveg og hindruðu þar með framgang byltingarinnar. Fullkomlega hilaríus í sjálfu sér – en fyndnast var þó að helsta dæmi greinarhöfundar og myndskreytis var hin alræmda pönksveit Kiss.

***

Þriðja atriðið sem mætti ræða – þegar við erum búin að ræða samsekt okkar í hatrinu sem fylgir almennri afstöðu vesturlanda til þriðja heimsins, með áherslu á okkar eigið þjóðríki – er andsemítisminn sem grasserar í allri umræðu strax og Palestínumálstaðurinn er tekinn upp. Fólk virðist meðvitað um að maður getur ekki gert samasemmerki milli þess að vera gyðingur og að vera Ísraelsmaður en svo hefur það heimfært allar gyðingaklisjurnar upp á ALLA Ísraelsmenn, einsog þeir séu eitt stórt og ljótt samsæri, allir ein hægrisinnuð hernaðarmaskína, útsmognir, illir og gráðugir. Allir fara undir sama hatt. Þannig verður jafnvel Dana International að pólitískum áróðursarmi Benjamins Netanyahu þegar hún syngur um kærleikann – á máta sem Taylor Swift yrði aldrei málsvari Trumps í okkar huga, eða Svala málsvari hrunverjanna, jafnt þótt þær kæmu fram á viðburðum á vegum sinna þjóðríkja (sem Eurovision er ekki beinlínis – það er fyrst og fremst evrópskur viðburður).

Nú á ég ekki við að það sé ekki hluti af pólitísku prójekti hverrar þjóðar að slá um sig með dyggðum, breiða rósrauða ástarhulu fegurðarinnar yfir skíthauginn, heldur bara að þarna sé ekki 1:1 samband og það sé ekki hægt að draga Ísraelsmenn eina út fyrir ramma og leggjast á þá af fullum prinsippþunga þegar aðrir eru meira og minna stikkfrí. Rasismi – og fyrirlitning almennt – birtist nefnilega oft sem svona prinsippþungi, þegar við gerum undanþágur fyrir alla nema einhvern einn tiltekinn hóp.

Mér þætti við alveg mega taka þessa samræðu svolítið og hvar við drögum línuna. Ég er til dæmis ekki viss um að maður geti verið „á móti Ísrael“ – s.s. tilvist Ísraelsríkis – án þess að vera sekur um andsemítisma.

***

Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á myndina 東京物語, / Tōkyō Monogatari / Tókíósagan eftir Yasujiro Ozu. Ég vissi ekkert um hana, sá hana bara á einhverjum lista yfir bestu myndir allra tíma. Hún er japönsk (augljóslega) og frá árinu 1953. Fjallar um gömul hjón sem búa í litlu bæjarfélagi og ferðast um langa leið til að heimsækja börnin sín og tengdabörn í Tókíó. Tempóið er mjög hægt og plottið er nánast ekkert – bara beinagrind – og samræðurnar nánast einsog þær hafi verið skrifaðar upp úr spjalli hvaða fjölskyldu sem er. Mjög natúralískar. Leikurinn er hins vegar frekar ýktur og blandan er eitthvað sem minnir mig á Hal Hartley – hvers myndir ég hef reyndar ekki séð síðan Haukur Magg sýndi þær á Kaffi Sól þegar við vorum í menntaskóla, svo það er kannski misminni.

Í þessu hæga tempói afhjúpast samt einhver þemu og verður til einhver skriðþungi. Sennilega er þetta saga um það hvernig kynslóðir gleymast, hverfa og deyja, hvernig tíminn valtar yfir alla – lagið Cat’s in the Cradle kemur líka upp í hugann, foreldrar sem hafa ekki tíma fyrir börnin sín sem verða síðan afar og ömmur hverra börn hafa ekki tíma fyrir þau. Það er líka eitthvað þarna um falsið í nostalgíunni – hugmyndinni um að hlutirnir hafi verið betri áður. Ég veit ekki hvort mórallinn er þá bara að lífið sé viðstöðulaus harmur – en það er þá fallegur harmur.

Myndin er mjög falleg. Við Nadja vorum hins vegar mjög þreytt og myndin er vel á þriðja tíma löng. Ég sofnaði aldrei, allan tímann, en ég get ekki sagt að ég hafi ekki verið nálægt því nokkrum sinnum. Merkilegt nokk mest fyrsta hálftímann – það rann svo af mér og ég var hressari síðustu tvo tímana.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png