Úr kúltíveruðum kindarhausnum (menning við ysta haf)
Næsta laugardag verður opnuð bókasýning í Safnahúsinu sem ég hef átt þátt í að stýra, ásamt starfsmönnum Bókasafns Ísafjarðar, ekki síst þeim Robertu Šoparaite og Eddu Kristmundsdóttur. Sýningin heitir þessu nafni, Úr kúltíveruðum kindarhausnum, og á henni má sjá fjölda bóka sem tengjast Vestfjörðum með ýmsum hætti – ljóðabækur eftir Vestfirðinga, vestfirskar barnabækur, vestfirskar bækur eftir höfunda sem eru af erlendu bergi brotnir (en slíkir eru t.d. nú í meirihluta á Vestfjörðum), bækur sem gerast á Ísafirði og svo framvegis. Þetta er auðvitað ekki nein heildarútstilling á slíkum verkum heldur dálítið sýni sem er ætlað að sýna breiddina.
Sýningin er haldin í tilefni af útgáfu bókarinnar Menning við ysta haf: Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða og Stranda í ritstjórn Birnu Bjarnadóttur og Inga Björns Guðnasonar, þar sem ég á greinarkorn um ísfirskar bókmenntir sérstaklega – það er úrvinnsla á þessari dellu sem ég fékk á heilann fyrir nokkrum misserum (og tengist auðvitað vinnunni við Náttúrulögmálin). Verður hún opnuð samhliða útgáfufögnuði bókarinnar þar sem fram koma Ármann Jakobsson, Andrew McGillivray, Birna og Ingi Björn, Gunnar Þorri Pétursson og Oddný Eir Ævarsdóttir. Sú síðastnefnda mun fjalla um Eirík Guðmundsson heitinn en bókin er tileinkuð minningu hans, vors besta sonar, sem lést í fyrra langt fyrir aldur fram – en átti mikinn þátt í verkefninu og málþingunum sem bókin byggir á.
Um kvöldið verður svo skemmtidagskrá í Edinborgarhúsinu. Þar verða flutt gömul og nú verk í bland – ég les sjálfur úr minni nýju bók en auk þess koma fram skáldin Helen Cova, Hermann Stefánsson, Oddný Eir, Ólína Þorvarðardóttir og nýjasta viðbótin í rithöfundasúpu Ísafjarðarbæjar, spennusagnahöfundurinn Jarosław Czechowicz, sem mun segja frá pólskum bókum sínum á ensku (ein hverra gerist einmitt á Ísafirði). Tónlistaratriði verða í fimum höndum þeirra Skúla mennska og Gosa.
Dagskráin í Safnahúsinu hefst klukkan 15 en kvölddagskrá klukkan 20.
Comments