Ögrandi lestur


Ég er varla einn um að finnast að það skipti meira og meira máli – í „umræðunni“, þetta er ekki mín persónulega skoðun – að list sé skemmtileg. Hún hafi ofan af fyrir manni. Í senn er hún þá meinlaus og einhvern veginn eitthvað sem maður getur sleppt – t.d. ef listamaðurinn reynist vera ódó. Listin er aldrei stærri en svo. Dómarnir eru annað hvort þannig að þeir einblína á þetta – hvaða hluti hafi verið skemmtilegur og hvaða hluti hafi verið leiðinlegur (jafnvel hvaða persónur hafi verið leiðinlegar/skemmtilegar – sem mér finnst hálf absúrd) – eða þeir reyna að hefja sig yfir það með því að segja aldrei orð um það hvort nokkra nautn megi fá úr lestri verksins. Áhorfi bíómyndarinnar. Hlustun lagsins.


Ég sá á dögunum að einhver deildi status sem var held ég frá einum af þessum höfundum sem ég rétt svo kannast við nafnið á en hef aldrei lesið – hugsanlega einhver sci-fi týpa. Kvótið var eitthvað á þá leið að á næsta ári ætti maður að lesa það sem mann langar og ekki leyfa neinum að líta niður á sig fyrir það. Ég hef talsverða samúð með því sjónarmiði að maður eigi ekki að eyða lífinu í að skammast sín en mér finnst líka að svona markmið feli í sér að maður ætli ekki einu sinni að reyna að gera neitt sem er erfitt – ætli ekki að nota bókmenntir til að víkka út sjóndeildarhringinn heldur fyrst og fremst til þess að fróa hvötum sínum og löngunum. Ég er ekki mótfallinn því síðarnefnda, ég sé bara ekki þörfina á hvatanum. Þarf maður að fara í eitthvað átak til þess?


Nei, við erum ekki svona knosuð. Svona bæld. Við erum mjög eftirlátssöm og sérhlífin, flest.


Ég held líka að það hafi oft verið tímabil í bókmenntasögunni þar sem við snobbuðum yfir okkur – rembdumst við að vera gáfaðri en við vorum, lögðum jafnvel mikið upp úr því að feika það – og önnur þar sem okkur varð mikið í mun að afsanna snobbið. Sýna hvað við værum alþýðleg og afslöppuð. Ég reyni gjarnan að hafa það að markmiði, bæði sem höfundur og lesandi, að fara einhvers konar bil beggja – þetta á ekki að vera leiðinlegt en ef þetta er bara skemmtilegt þá situr jafnan lítið eftir. Ég vil helst ekki standa upp frá bók með sams konar tilfinningu og þegar stend upp úr sófanum eftir sjónvarpsgláp (svona oftast nær). Að þetta hafi nú verið alltílagi (og ég þurfi jafnvel að beita mig hörðu til að elta ekki beituna og horfa á annan þátt) og svo muni ég kannski ekki hvort ég er yfirhöfuð búinn að sjá þessa seríu þremur mánuðum síðar. Ég vil allavega helst ekki að það verði reglan, einsog mér finnst það vera með sjónvarpið.


Ég er reyndar líka ósammála mér í þessu. Það togast á í mér fleiri sjónarmið. En heilt yfir fæ ég aulahroll yfir þessum hugmyndum um að manni eigi ekki að finnast neitt vera drasl, sérstaklega ekki eitthvað meinstrímrugl. Ég vil fá meinstrímfyrirlitningu unglingsára minna til baka, takk.


Það er fullt af ágætis dóti sem maður getur alveg látið yfir sig ganga óttalegt drasl. Ég hef rifið í mig bækur sem mér fannst óttalegt drasl, og hent öðrum í gólfið fyrir að vera óþolandi, þótt þær væru alls ekki drasl. Og öfugt auðvitað – ég er ekki nötts, ég ríf frekar í mig góðar bækur og hendi þeim vondu í gólfið. En þetta er ekki alveg einhlítt, kannski af því ég er ekki alveg ekki-nötts heldur.


En hvað kann ég þá að meta í bókum, svona umfram að þær séu skemmtilegar (sem mér finnst sem sagt líka skipta máli – þótt ég fyrirgefi örfáum að vera það alls ekki). Kannski að þær séu sérstakar? Óvenjulegar? Ögri mér einhvern veginn? Séu „snjallar“ – stundum get ég auðvitað dáðst að einhverju í list sem er í sjálfu sér handbragð, svona einsog ég get horft á fólk leika listir sínar á hjólabretti. Eða leika handbragð sitt á hjólabretti, meina ég. Fótbragð. Ég veit ekki hvort það fagidíótí eða hvort þetta er eitthvað sem allir gera – fæ víst aldrei aftur að lesa bækur öðruvísi en maður sem hefur skrifað bækur.


Og rétt einsog með hjólabrettin vil ég frekar sjá einhvern reyna að gera eitthvað erfitt og renna á rassinn með það en að sjá einhvern renna sér í hringi af „feykilegu öryggi“. En mér sýnist að við – þessi menningarheimur, ekki bara Ísland – verðlaunum frekar þá sem reyna lítið, og þá sem reyna lítið á okkur. Og það finnst mér bara frekar leiðinlegt.

209 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png