Óraunveruleikatilfinningin

Ég flaug til Kaupmannahafnar og las hálfa Ef að vetrarnóttu ferðalangur og horfði á tíu mínútur af Fortitude. Á Kastrup las ég Feigðaróra og át hamborgara og kláraði ljóðið sem ég þurfti að skrifa fyrir Skärhamn áður en ég flaug áleiðis til Gautaborgar. Þegar ég kom á hótelið skömmu fyrir miðnætti kom í ljós að það var ekki búið að greiða herbergið, sem ég lenti þá í að leggja út fyrir – og var frekar fúll (enda er ég svo blankur og skuldsettur að það var hálfgerð heppni að kreditkortinu var ekki synjað).

Ég stillti ekki vekjaraklukkuna því mér þótti fásinna að ég myndi nokkurn tíma sofa lengur en til tíu og vaknaði auðvitað klukkan hálfellefu – búinn að missa af morgunmatnum. Fór í búðina og keypti sænska hluti sem eru ekki til á Íslandi og síðan á kebabstað, fékk mér falafel og kaffi, pakkaði svo saman og var sóttur af hópi fólks sem var að fara til Skärhamn. Við villtumst á leiðinni og keyrðum 20 kílómetra krók, en náðum samt á staðinn í tæka tíð. Félagsskapurinn – sem samanstóð af ungu Gautaborgsku menningarfólki – var góður en ég var full dúðaður til að sitja lengi í bíl.

Norræna vatnslitasafnið er í Skärhamn. Þetta er mjög stórt safn, helgað norrænni vatnslitamyndlist, og það er í þessum litla bæ – þar sem mér skilst það sé dálítið hornreka, enda setur það drjúgan svip á bæjarlífið. Skärhamn er túristabær á sumrin en annars hálfgert snobbsamfélag, held ég – ekkert nema stór einbýlishús sem ku svo dýr að eitt helsta vandamál bæjarbúa er að börnin flytja öll til Gautaborgar þegar þau fara að heiman, jafnt þótt þau langi að vera hér, því húsnæðið er einfaldlega of dýrt. Það eru svo til engar íbúðir í bænum. Ef þú getur ekki búið í 400 fermetra villu þá verðurðu bara að búa einhvers staðar annars staðar. Það er lýsandi að þótt hér búi ekki nema um 4.000 manns þá er eini kjörmarkaðurinn einsog Kringlu-Hagkaup á sterum – ég hef ekki ímyndunarafl til að giska á hvað sé EKKI til þarna. Að minnsta kosti ekkert sem góðborgara gæti skort.

Í Norræna vatnslitasafninu hefur verið sett upp sýning úr því sem er kallað Guerlain safnið og er jafnan til húsa í Pompidou. Daniel og Florence Guerlain eru hjón sem hafa eytt ævinni í að safna vatnslitaverkum – hann er kominn af ilmvatnsættinni frægu. Við Nasim Aghili – sem forfallaðist vegna veikinda – áttum að bregðast við sýningunni með texta. Nasim gat að vísu sent sitt verk með pósti, sem samanstóð af textabrotum sem var dreift á vissum tímapunktum á meðan gædinn leiddi gesti í gegnum sýninguna. Textabrotin voru í umslögum sem merkt voru listamönnunum og í umslögin hafði hún sprautað ólíkum ilmvötnum. Ég stóð síðan í innsta salnum, sem er ekki hluti af Guerlain-sýningunni, heldur eru þar verk í eigu safnsins frá hinum ólíku norðurlöndum, og las þetta ljóð sem var samið af tilefninu. Ljóðið er hluti af svítunni Ljóð um samfélagsleg málefni og ég orti það á ensku frekar en sænsku – þótt ég hafi reyndar líka ort ljóð í svítuna á sænsku, þá er ívið auðveldara fyrir mig að gera þetta á ensku. Ljóðið er meðal annars viðbragð við því hversu erfitt er að bregðast við sýningu einsog þessari – Guerlain hjónin eru ekki með neina kríteríu, þau safna bara því sem þau fíla, og þessi sýning í Norræna vatnslitasafninu, sem er að mörgu leyti mjög góð, er ekki heldur með neina kríteríu eða þema. Þetta er bara samansafn af fínum verkum. Og ég endaði eiginlega á því að bregðast frekar við félagslega raunveruleikanum – safninu sem slíku, sýningunni sem slíkri, mér þarna, Guerlain-hjónunum o.s.frv.


Just nu tolkar poeten Eiríkur Örn Norðdahl vår utställning från Centre Pompidou i Paris. Mäktigt! #akvarellmuseet #nordiskaakvarellmuseet #textival #eiríkurörnnorðdahl #donationguerlain #gibcaextended #gibca2015

A video posted by Nordiska Akvarellmuseet (@nordiskaakvarellmuseet) on Nov 7, 2015 at 5:25am PST

Síðan fóru allir og skildu mig eftir einan í Skärhamn. Ég bý í einni af listamannsíbúðunum sem fylgja safninu – með fimm metra lofthæð, trönum, útsýni yfir skerjagarðinn og öllu sem slíkum íbúðum fylgir. Ég fór í steraHagkaup og keypti mér kjúkling, focaccia, kartöflusalat og snakk og er annars bara eitthvað að íhuga lífið og skáldskapinn og er reglulega gripinn mjög sterkri óraunveruleikatilfinningu.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png