Ísafjörður

Yfirleitt er þrennt nefnt til sögunnar þegar landsbyggðarflótti er annars vegar. Í fyrsta lagi er því haldið fram að lífið í smábæjum sé einhæft líf og þar sé lítið við að vera. Í öðru lagi að þar sé lítið um vel launaða atvinnu (ergo: öll álverin sem hið opinbera vill prumpa út um allt land). Í þriðja lagi að þar sé lítið um atvinnu fyrir menntafólk. Ég er ekki viss um að þetta sé satt – í það minnsta er það ekki alveg sjálfgefið. En fólksfækkunin er samt staðreynd.

Ég er frá Ísafirði – við eigum engin álver, eða neitt sambærilegt – og þar hefur mannfjöldaþróunin verið svona:

1970: 3.005 íbúar 1980: 3.352 íbúar – 11% fjölgun (þjóðinni fjölgaði um 12%) 1990: 3.498 íbúar – 4,3% fjölgun (þjóðinni fjölgaði um 11,6%) 2000: 3.138 íbúar – 10,3% fækkun (þjóðinni fjölgaði um 9,1%) 2010: 2.909 íbúar – 7,3 % fækkun (þjóðinni fjölgaði um 13,8) 2015: 2.719 íbúar – 6,5% fækkun (á fimm árum – þjóðinni fjölgaði um 3,6%)


Á níunda áratugnum var gríðarleg verðmætasköpun á Ísafirði – mikið um vel launaða vinnu – en lítið um það sem maður gæti kallað „menningu“, að minnsta kosti í borgaralega skilningnum. Það var mikið fyllerí og böll og áreiðanlega margt við að vera annars – og að alast upp á þessum tíma voru hálfgerð forréttindi, krakkar gengu sjálfala um bæinn í stórum hópum og léku sér í rústum af gömlum skipum og hálfbyggðum nýjum húsum. En annars var Ísafjörður held ég svona smábær einsog maður sér í bandarískum bíómyndum – einhæft atvinnulíf og unga fólkið dreymir um að komast út í heim. Eða í það minnsta til Reykjavíkur (hljómsveitin Reykjavík! er einmitt eftir þessum draumi, með upphrópunarmerki og öllu).

Það var svipað uppi á teningnum framan af tíunda áratugnum – ég rifjaði það upp nýlega að þegar ég gekk í menntaskóla áttu svo að segja allir bíl sem á því höfðu á annað borð áhuga, og greiddu hann út í hönd, enda sóst eftir skólafólki (og öllu fólki) í vinnu. Bæjarrónarnir þurrkuðu sig alla jafna upp í nokkra daga annað veifið til að geta unnið og þannig sparað fyrir næsta túr. En frystihúsin byrjuðu að fara á hausinn og um miðjan áratuginn settu snjóflóðin strik í reikninginn – fyrst fór skíðasvæðið og sumarbústaðabyggðin á Ísafirði og einn dó, svo komu snjóflóðin í Súðavík og á Flateyri þar sem létust vel á fjórða tug í viðbót. Ég man árin fram undir aldamót sem kæfandi og vonlausan tíma – einsog allir vildu bara komast í burtu.

Árið 1999 kom Bónus – ég hef svo sem ekki vit á því en mér er sagt það hafi munað nokkru um matarverð. Árið 2003 opnaði Langi Mangi – fyrsta alvöru kaffihúsið á Ísafirði. Sama ár var tónlistarhátíðin Við Djúpið haldin í fyrsta sinn. Ári síðar byrjaði Aldrei fór ég suður og þá var líka í fyrsta sinn haldin leiklistarhátíðin Leikur einn, sem ári síðar fékk nafnið Act Alone. Mýrarboltamótið hefur verið haldið frá 2006, sama ár og Háskólasetrið byrjaði að starfa. Árið 2008 var loksins lokið við að malbika veginn um Ísafjarðardjúp, sem hafði verið tekin í notkun árið 1975. Þegar konan mín keyrði hann fyrst, tveimur árum fyrr, gat hún ekki líkt honum við annað sem hún þekkti en fjallvegi í Afganistan.

Internetið kom. Ég fékk það 1995. Því verður eiginlega ekki lýst hversu róttæk breyting það er, þegar maður býr á hjara veraldar. Þegar ég var sautján ára opnaðist mér gluggi og út úr glugganum spratt heimur – og ekki síst bókmenntir, ekki síst ljóð. En hvað um það.

Í dag eru milljón veitingastaðir, tónlistarhátíðir og guð veit ekki hvað á Ísafirði og í nágrannasveitum. Viðburðirnir hlaðast að vísu mest á bjartari hluta ársins en veitingastaðirnir eru flestir opnir yfir vetrartímann, þeim fylgja smærri tónleikar og það er hægt að fara í Skúrinn til að horfa á leiki og það er hægt að spila Pub Quiz og svona – það er í öllu falli ekkert sambærilegt við hvernig það var þegar ég var að alast upp, þegar Sjallinn var bara opinn fyrir fyllerí á helgum en opnaði svo sem veitingastaður/kaffihús (og einsog einhver nefndi þegar ég var í menntaskóla var eitthvað pínulítið ósmekklegt að éta úr sér þynnkuna sitjandi í sama sófa og maður horfði á fólk gubba, kela og putta hvert annað í kvöldið áður). Það mæta áreiðanlega færri í bíó núna en áður – það er eiginlega það eina – og það er búið að loka vídeóleigunum. Skítt með vídeóleigurnar en bíóið má aldrei deyja. Og kannski gubbar fólk minna á almannafæri. Puttar hvert annað bara heima.

Sennilega eru tekjurnar lægri. Mér finnst líklegt að menntunarstigið sé hærra.

Hvað um það. Ég er að reyna að koma orðum að einhverri mótsögn hérna; fólki fækkar á sama tíma og mér finnst sjálfum einsog það hafi aldrei verið jafn aðlaðandi að búa á Ísafirði. Ekki bara Ísafirði sem slíkum, reyndar, heldur smábæjum almennt – það er ódýrara, lífið er einfaldara (maður er fljótari að sinna erindum, skjótast í heimsókn o.s.frv.). Og það er gerlegt án þess að missa af öllum heiminum (eiginlega væri óskandi að maður gæti misst aðeins meira af honum). Vöruúrvalið er kannski ekki það sama og í sérvöruverslununum í Reykjavík – en ég lendi voða lítið í vandræðum, þótt mér finnist gaman að elda og þá stundum „framandi“ mat (og kem oft við í sérvöruverslununum þegar ég á leið um borgina og birgi mig upp á því sem mig vantar).

Samanborið við að búa í úthverfi – meira að segja idyllísku úthverfi einsog hér í Västerås eða norður í Oulu – hefur smábærinn alltaf vinninginn. Það er svo miklu meira fyrirtæki að færa alla fjölskylduna frá a til b – jafnvel þótt maður sé á bíl. Og þótt ég kysi kannski heldur stórborg – Berlín eða Helsinki – ef við værum barnlaus, þá, já þá erum við ekki barnlaus.

Ég veit það ekki. Kannski er þetta bara eitthvað sem ég hef bitið í mig. Smábæjernishyggja.

Ég átta mig á því að ég nýt ákveðinna forréttinda vegna starfs míns – ég get tekið það með mér hvert sem er – en ég þarf líka að ferðast mikið og ég gæti alveg þegið millilandaflugvöll sem væri nær en í sjö klukkustunda akstursfjarlægð (eða dálítið áreiðanlegra og ódýrara innanlandsflug). En ef maður ætlar að búa á þeim útnára sem Ísland er, þá er allt eins gott að fara alla leið.

Það verður hugsanlega meira moj fyrir Nödju að redda sér vinnu sem hana langar að vinna – hún er komin í hlutastarf sem frönskukennari í vetur, en það er bara hlutastarf. Sem stendur tökum við því sem áskorun frekar en ókosti.

En fólki sem sagt fækkar. Kannski er engin sérstök ástæða til að hafa af því áhyggjur. Ég er bara ekki viss. Ísafjörður leggst ekkert í eyði í minni lífstíð – og vandamálið er varla í sjálfu sér að þar sé færra fólk, heldur það einhæfa og fátæklega líf sem á að fylgja fámenninu. Þegar það er ekki raunin, þegar lífið verður þvert á móti ríkulegra – þá skiptir kannski ekki neinu máli þótt eitthvað af fólki flytji í burtu. Eða ég veit það ekki.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png