Ég er nýja heimasíðan hans Eiríks

Ég á enn fremur langt í land með að klára þessa heimasíðu þótt það sé í sjálfu sér margt komið inn. Ljóðaþýðingar, myndbönd, hljóðaljóð og pdf af bókum. Þetta er mikil handavinna og ég er ekki kominn með leyfi fyrir öllu og vefkerfið sem ég nota til að riða þetta allt saman leyfir ekki alveg hvað sem er. En ætli ég fari ekki að slaka á og leyfa þessu héðan af að gerast hægt og bítandi – setja inn smá í hverri viku og vona að þetta hrynji ekki yfir mig. Það er mjög margt hérna sem hriktir í.


Einu sinni var ég með mjög fína heimasíðu sem var full af efni. Hún sýktist af einhverri veiru og ég eyddi hálfu ári í að reyna að bjarga henni en það reyndist svo til ómögulegt – a.m.k. fyrir litla mig – svo ég straujaði yfir hana hágrátandi og bjó til aðra síðu sem var eiginlega ekki annað en nafnspjald. Þangað gat ég vísað fólki sem vildi kópípeista bio-ið mitt og fá af mér myndir í bærilegri upplausn – sem er ekki minnst nýtanlega hliðin á því að eiga heimasíðu. Og svo var ég bara með bloggið mitt frístandandi. Þannig var þetta sennilega í nærri áratug og beið þess að ég kæmist yfir það að hafa glatað hinni.


Og auðvitað fer allt til andskotans smám saman. Eitt og annað hefur sannarlega misfarist nú þegar og úr því verður varla bætt. Til dæmis eru engar myndir með þeim bloggfærslum sem ég flutti hingað inn af gamla blogginu. Þá hef ég verið að rekast á alls konar tæknilega veggi – byggingarmöguleikarnir eru ekki alveg jafn endalausir og ég hélt þeir yrðu. Ég á líka eftir að prófarka franska hluta síðunnar, þannig að ef þið skiljið frönsku myndi ég bara bíða með að fara þangað inn.


En hvað er það sem koma skal? Fyrir utan það sem þegar er komið inn – eða a.m.k. vísir að – ætla ég að koma hérna fyrir einhvers konar greinasafni og mögulega setja upp einhvers konar síðu fyrir mínar ljóðaþýðingar (þ.e.a.s. ljóðum eftir aðra sem ég hef þýtt – fleiri hundruð – en ekki þýðingum annarra á mínum ljóðum, sem eru þegar byrjaðar að birtast). Hér má nú þegar finna pdf af ýmsum bókum – svo sem Af Steypu, Ást er þjófnaður, Booby, Be Quiet og ljóðabókunum mínum alveg fram til Ú á fasismann (ég á að vísu eftir að digitalísera Heimsendapestir – en það er á to-do listanum fyrir næstu viku). Hljóðaljóða- og myndbandsljóðasvæðin eru sennilega fullskipuð – a.m.k. þangað til ég bý til meira efni (og það er einmitt eitt myndband í smíðum). Svo verða „fréttir“ – ætli það verði ekki fyrst um sinn mest af nýju bókinni, sem kemur út eftir tæpan mánuð. Hún heitir Einlægur Önd og það er eitthvað smáræði um hana á forsíðunni ef þið hafið áhuga.34 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png