Ástríða gagnrýnenda & syndir Egils

Í gær fór af stað hellings umræða um fagmennsku í bókmenntagagnrýni eftir frétt á Vísi um að Páll Winkel fangelsismálastjóri væri farinn að skrifa dóma fyrir Morgunblaðið. Í viðtali kom fram að hann væri enginn sérstakur fagmaður en væri í vinfengi við starfsfólk Morgunblaðsins sem hefði boðið honum starfið. Þá hafði hann ekki fengið greitt og virtist ekki vita hvað eða hvort hann fengi laun fyrir þetta. Nú þarf svo sem ekkert að hafa langar ræður um það hér að bókagagnrýni er sennilega eitt verst launaða djobb sem maður getur tekið að sér. Og vel flestir þeir sem því sinna eru ekki fagmenn heldur einmitt áhugamenn. Og auðvitað má líka til sanns vegar fær að helstu meðmæli bókmenntagagnrýnanda séu að hán hafi einlægan áhuga á bókmenntum, jafnvel meiri áhuga á bókum en peningum. Hins vegar þurfa gagnrýnendur einsog aðrir að lifa og borga leigu og svona. Þar koma tekjur í góðar þarfir.


En hvað er fagmaður í bókmenntagagnrýni þá? Einfaldasta útskýringin er auðvitað sú að maður sé orðinn fagmaður þegar maður er farinn að fá greitt – þar skilji milli fagmanna og áhugamanna – og það því rangt hjá Páli að hann sé enn áhugamaður eða amatör (nema Mogginn hafi ekki hug á að borga honum). Önnur kenning væri að fagmaður sé sá sem hafi lært eitthvað – en þá mætti gjarnan halda því til haga að maður getur hafa lært ýmislegt án þess að hafa neitt diplóma til að veifa. Þá er bókmenntagagnrýni alls ekki eitthvað eitt – hún er greining á verki, innlegg í fagurfræðilegan (og heimspekilegan og pólitískan) debatt, hún er gæðastjórnun eða taste-making og hún er skemmtiefni og list í sjálfri sér. Og eitt og annað fleira. Ég er ekki viss um að maður verði „góður“ í neinu af þessu, af því einu og sér að hafa útskrifast úr bókmenntafræði. Þetta er hæfileiki, einsog svo margir aðrir, sem maður tileinkar sér fyrst og fremst með einlægri ástundun á löngu tímabili. Með því að reyna aftur og aftur og aftur að gera hlutina vel og af ástríðu. Og sennilega er það krísa íslenskrar menningarumfjöllunar – sem mér skilst að Auður Jónsdóttir geri að umtalsefni í viðtali í Stundinni í dag (en ég get ekki lesið vegna áskriftarleysis) – hversu fáir endast þar í starfi. Ef við viljum eiga góða menningarumfjöllun þarf einhver að sinna henni – og best er auðvitað ef viðkomandi lítur á það sem sitt fag, en ekki aukabúgrein meðfram því að skrifa bækur eða stýra fangelsi, eða eitthvað til að dunda sér við tvær vikur á ári. Þar er að vísu ekki við þá gagnrýnendur sem fást til að sinna þessu fyrir lítil laun og litlar þakkir að sakast, heldur er þetta samfélagslegt vandamál – það vantar bakbeinið í bransann, bæði hugsjón hjá fjölmiðlum og fjárstyrk.


___


Annars skrifaði Egill Helgason mér bréfkorn í gær til að segja mér að hann væri með samviskubit. Hann hafði mætt í Gísla Martein á föstudaginn með lista af bókum sem hann ætlaði að mæla með sem bókum ársins og í öllu havaríinu gleymdi hann Einlægum Önd!


Þar fór jólasalan, jólahýran. Krakkarnir fá ekki iPhone í skóinn á meðan jólasveinninn lepur dauðann úr skel. Jóla-confitið verður frá KFC. Ég föndra eitthvað fyrir Nödju úr bjórdósaflipum. Og svo gengur bara betur næst.


-----


Hérna er annars dómurinn úr Kiljunni. Þau voru voða glöð. Og fagmannleg, auðvitað.


334 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png