Árið 2016 – fyrri hluti

Árið hófst á Ísafirði með sprengingum, einsog venjulega. Að vísu vorum við í Hoi An árið þar á undan og höfum þess utan verið í Oulu, Helsinki, Kaupmannahöfn og Rejmyre. Fylleríið sem tók við var epískt – við Valur bróðir enduðum á Metallicatrúnó með allt í botni í stofunni heima þar til tók að birta. Sem var undir lok mánaðarins, ef ég man rétt – rétt í tæka tíð fyrir sólarkaffið.

Ég keypti mér skíðakort og Aram líka – við vorum duglegir að skella okkur. Nadja fór á fullt í gönguskíðamennskuna og endaði í Fossavatnsgöngunni – fyrir utan viðstöðulausan þrældóm í kajakróðri alltaf þegar veður leyfði. Hún hefur líka verið að dunda sér við æfingaakstur í rólegheitum.


Lemmy Kilmister í Motörhead dó líka í lok árs 2015 – á meðan heimsbyggðin syrgði Bowie grét hjarta mitt fyrir Lemmy. Við félagarnir live-streamuðum jarðarförinni í bílskúrinni minni og drukkum jack í kók fram á rauðanótt. Ekki löngu síðar dó svo Bodil Malmsten, sem ég náði aldrei að hitta, en komst í pennavinfengi við í kjölfar þess að hún tók ástfengi við Illsku.

Í lok janúar fór ég til London með Ástu Fanneyju, Andra Snæ (sem allir voru þá vissir um að yrði forseti) og Völu Þórodds. Við lásum upp á Rich Mix með hópi útlendinga. Hér erum við í neðanjarðarlestinni. The Tube. Auð sætin eru til marks um fjarvist okkar úr bókmenntasögunni, reikna ég með. Nema auða sætið hans Andra, það er forsetasætið – hann á kannski enn séns í bókmenntasöguna. Þegar ég hugsa út í það þá er hann reyndar með í síðustu.


Í febrúar var Illska frumsýnd í Borgarleikhúsinu við ægilegan – og að mér fannst verðskuldaðan – fögnuð. Þegar sýningin fór á fjalirnar hafði ég áhyggjur af að hún yrði ekki góð og að mér myndi finnast ég ábyrgur fyrir því. Hvorugt átti við rök að styðjast – Óskabörn ógæfunnar áttu þessa sýningu og hún var frábær. Við Nadja fórum suður og Per, sænski útgefandi minn og góðvinur, kom frá Malmö og við héngum í borginni drjúga stund. Ég held að það sé dýrasta frí sem ég hef farið í. Við gerðum þetta líka fyrir nokkrum árum – að hanga í Reykjavík, fara út að borða og sulla á börum – og verðið hefur að minnsta kosti tvöfaldað. Það er í það minnsta alveg úr sögunni að maður geti leyft sér að kíkja ekki á verðlistann áður en maður sest niður. Við gerðum það tvisvar – þar af á einum stað sem ég hef sótt nokkrum sinnum – og það gerði nærri því út af við okkur. Mér er enn illt.


Ég var svo tekinn fyrir á Útvarpi Sögu vegna leikritsins og vegna þess að ég talaði einu sinni (mjög) illa um Jón Magnússon í pistli á RÚV. Þá fékk ég af mér þessa skopteikningu í Mogganum. Það er einhvers konar heiður að vera á skopmynd með Pétri Gunnlaugssyni.


Plokkfiskbókin

Kom út um páska. Haukur Már útlitshannaði hana. Ég var búinn að vera að dunda mér við að henda í hana uppskrift og uppskrift, texta og texta, frá því í janúar 2013. Eiginlega byrjaði vinnan við þessa bók upp úr skilnaðinum (sem entist svo bara rétt svo út árið) – í einhverju hamslausu eirðarleysi milli stanslausra ferðalaga (ég var ekki nema fjóra-fimm mánuði heima þetta árið). Upphaflega var hugmyndin að skrifa eins ósennilega bók og ég gæti látið mér detta í hug sem follow-up á Illsku. Ég var líka í einhverri fýlu út í það almennt hve margar matreiðslubækur ollu mér sárum vonbrigðum og voru alger meðalmennska, bæði í matreiðslukúnst en ekki síður í konsepti og texta.

Upp úr því fór ég að skoða alls konar skrítnar matreiðslubækur, meðal annars með textum um mat – altso textum úr bókmenntaverkum – en líka bækur á borð við 81 lättlagade recept för nybörjare eftir Georges Perec, sem ég las s.s. á sænsku, og Lantlig kokkonst från centrala Frankrike eftir Harry Mathews. Sú fyrri er eiginlega sama uppskriftin með mjög litlum breytingum 81 einu sinni. Sú síðari er bara ein mjög, mjög, mjög, mjög löng uppskrift að franska réttinum ‘farce double’ – sem er fylltur og upprúllaður lambabógur að hætti íbúa í La Tour Lambert. Afstaða fúturista til matargerðar – ekki síst spagettíáts – fannst mér svo fasínerandi, og keypti auðvitað á endanum fútúristamanifestóið í matargerð. Þá fékk ég líka dillu fyrir dillum í matargerð – svo sem einsog þessu með Ítalina og að mega ekki borða ost með fiski – og gerði einsog nútímamaðurinn gerir og sat og gúglaði í gríð og erg. Sem ég geri reyndar enn.


Allt varð þetta einhvern veginn að Plokkfiskbókinni, sem er mín fyrsta og eina matreiðslubók, og sennilega eina matreiðslubókin – a.m.k. á íslensku – sem fjallar fyrst og fremst um sjálfsmynd, pólitík og sérsinnu. Þegar hún kom út bauð ég til heljarinnar plokkfiskveislu heima hjá mér í Sjökvist – með aðstoð Nödju, Möggu frænku minnar (sem komst nýlega í fréttirnar fyrir aðra matarveislu, jólaboð fyrir hælisleitendur) og Adda manninum hennar – en þau fjölskyldan kíktu vestur í páskaheimsókn. Upprunalega planið var að fá kongapönksveitina Mömmu Hest til að spila en svo sveik klarínettuleikarinn mig og stakk af – fyrirvaralaust! – til Reykjavíkur með sjúkraflugi til að eignast barn. Ekki að hann hafi þurft að fæða það, en hann taldi sig þurfa að vera á staðnum. Öddi bróðir minn Mugison hljóp hins vegar í skarðið og stóð sig með miklum bravúr. Hann mætti svo aftur í Sjökvist á páskasunnudag með heila rútu af poppstjörnum með sér, sem fékk upplestur á nokkrum hljóðaljóðum og eina uppskrift. Ég held ég hafi sjaldan selt jafn vel og þessum glöðu poppurum.

Plokkfiskbókin held ég að hafi ekki náð neinni sérstakri metsölu – sem kom mér á óvart. Hún er eina bókin sem ég hef gefið út sem ég taldi sjálfgefið að myndi seljast hratt og mikið. Ekki að ég þurfi neitt að skammast mín fyrir söluna – ég veit reyndar ekki hver hún er, annað en að upplagið seldist ekki upp – en ég hef áreiðanlega aldrei skrifað jafn skemmtilega bók eða jafn gagnlega og kem aldrei til með að gera það. Það er furðulegt að hún skuli ekki til á hverju heimili.

Tyrkland, sjálfsmorðstilraun og botnlangakastið

Í apríl fór ég í fyrstu ferðina til Tyrklands – á ljóðahátíð í Uskudar (sem er asíumegin í Istanbul). Ég fór reyndar beint frá Frakklandi og gekk frekar brösuglega að komast. Þar hafði verið eitthvað að þvælast á bókmenntahátíð í Normandi – þar sem ég týndi passanum mínum, fékk neyðarpassa hjá konsúl, sem reyndist duga of skammt svo mér var vísað frá þegar ég ætlaði að tékka mig inn í flugið frá París til Istanbul. Hringdi í neyðarsíma utanríkisráðuneytisins, lét ræsa út vakt í sendiráðið, redda mér nýjum neyðarpassa með lengri gildistíma – keypti svo nýjan miða til Tyrklands (enda væri ég annars strand í Frakklandi) og fékk gistingu hjá Snæbirni Brynjarssyni, og frú, um nóttina. En ég sem sagt komst til Tyrklands. En var ekki sóttur á flugvöllinn, einsog mér hafði verið lofað, en það reddaðist nú.

Ég gekk reiðinnar býsn um borgina – fleiri tugi kílómetra – og var furðu lostinn hvert sem ég kom. Sennilega er þetta einhver magnaðasta borg sem ég hef komið til. Bæði er hún sérstök – nánast hver fermetri er ólíkur öllu öðru sem ég hef séð annars staðar – og svo er hún svo innbyrðis ólík. Maður er eina stundina á markaði sem minnir á miðaldir (eða minnir mig á tölvuleiki einsog Quest for Glory II; já eða Þúsund og eina nótt) eða við götu þar sem hvert einasta háhýsi virðist vera verslunarmiðstöð sem selur bara einn tiltekinn varning – það er t.d. heil gata af stórum vöruhúsum sem selja bara barnaföt og ekkert annað. Ofan í þetta eru hæstmóðins hipsterahverfi, verkamannablokkir, fátækrahverfi, klassískari túristahverfi með monumental byggingum og ógurlegum breiðum af ferðamönnum. Og svo framvegis og svo framvegis. Allt með einhverjum ótrúlega sérstökum blæ.

Það sem markaði sennilega dýpstu sporin var samt að sjá mann hóta því að kasta sér fram af háhýsi. Ég stóð þarna í félagsskap við ótal manns, á höfninni asíumegin, og horfði á hann í lengri tíma. Ég lýsti þessu svona á sínum tíma – korteri eftir að hann bjargaðist.


“Take a picture of that instead” the boatman at the harbor said to a pair of tourists posing, pointing up into the air at the seagulls. “Take a picture of what?” they asked. And I looked up and saw him. I watched him on the ledge for what seemed to be forever. He fell, grabbed a hold, climbed back up, threatened to jump again and again – at one point he took up his wallet and seemed to want to bribe the police to leave him alone. Then he fell again, grabbed a hold, swung his legs around and climbed back up. Every once in awhile he’d bang his head on the window so hard you could hear it – or him – crack, six stories down on the pavement. At times he seemed drunk out of his mind and at times as if he were spiderman. And I thought: Should I keep walking? Do something? Will I ever again get the chance to see a man die? Will I be more or less jaded and deluded if I stay or if I leave? Is there humanity in watching, and if not whom am I debasing? Me? Him? Society? My heart was racing and I really needed to pee. I never looked away, not for a single moment. I took up the phone and took a photo for Instagram, and thought: this is nuts, I am not a person, I am a machine. Something must happen – my gaze must be broken before I urinate myself in public. And then suddenly he gave up and decided to go on. He took somebody’s outstretched hand and climbed in the window which promptly was shut behind him, sealing him within the house, within humanity, stuck with the living. I clapped.

A photo posted by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Apr 12, 2016 at 5:33am PDT

Magaverkurinn

Nóttina áður en ég fór svaf ég ekkert fyrir magaverk og hugði það vera sökum böreksharðlífis. Um morguninn var ég ekki frekar sóttur á hótelið, til að fara út á flugvöll, en ég var sóttur á flugvöllinn þegar ég kom. Ég beið fram á síðustu stundu, örvænti og pantaði leigubíl sem þusti með mig út á völl. Þar uppgötvaði ég að ég var ekki með neinar lírur – en hugsaði að það yrði varla vesen, þar sem ég gæti stokkið inn á Ataturkflugvöll og farið í hraðbanka. En ég var seinn og þyrfti að hafa hraðar hendur. Þá kom í ljós að á flugvellinum var mikið öryggistékk til að komast inn í sjálfa bygginguna og engir hraðbankar úti. Ég hljóp í einhverja hringi í panikki, með dauðans verk í maganum, stökk svo til baka og henti í bílstjórann því eina sem ég átti – 50 evru seðli – sem hann tók fagnandi, enda sirka þrefalt verð.

Þegar ég lenti í Keflavík hálfum sólarhring síðar, eftir millilendingu guð einn man hvar, var ég aðframkominn af verkjum. Í Reykjavík fór ég beint upp í Kringlu, keypti mér kvalastillandi og harðlífistöflur, og lagðist svo til svefns án þess að skeyta minnstu um félagslegar skyldur við Möggu frænku mína eða fjölskyldu hennar. Ég var nokkuð skárri daginn eftir – flaug heim og hvíldi mig. Eftir 2-3 daga fór þetta aftur að versna. Ég hringdi upp á spítala á föstudeginum – í fyrsta skipti á ævinni sem ég hringi á lækni – og mér var fenginn tími á mánudegi. Nadja húðskammaði mig fyrir að krefjast ekki tafarlausrar þjónustu en í reynsluleysinu fannst mér einhvern veginn að það ætti að vera verk manneskjunnar sem svaraði í símann að leggja mat á það hversu áríðandi þetta væri – en hún vel að merkja spurði einskis. Ég sagðist bara þurfa að hitta lækni og hún sagði að ég gæti komið á mánudag. Svo kvöddumst við bara og ég skreið upp í rúm aftur með kvalastillandi.

Á mánudegi var ég tekinn í prufur og á þriðjudegi kom í ljós að ég var með botnlangabólgu. Ég skildi aldrei almennilega hvernig þetta virkaði nákvæmlega – og endaði með fjóra ólíka lækna sem lýstu þessu allir hver á sinn veg. Nema að það var ekki hægt að skera mig strax, því sýkingin væri bæði svæsin og lókalíseruð (hafi ég skilið púslað upplýsingunum rétt saman). Ef farið væri að skera myndi sýkingin hugsanlega breiða eitthvað úr sér. Ég var lagður inn og fékk einhver kjarnorkusýklalyf í æð í um viku – ég átti að vera í tíu daga en eftir um sjö var líkami minn bara orðinn svo miður sín af lyfjagjöfinni að læknunum leist ekkert á að gefa mér meira. Þá var ég sendur heim með eitthvert hversdagslegt pensilín.

Eftir sex vikur átti að skera mig – en þar sem ég yrði þá farinn úr landi (á flakk og svo til Svíþjóðar yfir sumarið) var því frestað fram á haust. Þegar til kastanna kom um haustið var ákveðið að það þyrfti alls ekkert að skera mig, enda hefði botnlanginn látið mig í friði í hartnær þrjá mánuði – og engin ástæða til að ætla að hann myndi þá láta neitt á sér kræla frekar, enda hefðu lyfin og líkaminn haft sýkinguna undir.

Berlínarháski I: Snörur og þjófnaður

Áður en ég lenti í Svíþjóð fór ég í stuttan rúnt um Frakkland til að kynna Illsku og svo beint til Berlínar á minningarathöfn um vinkonu mína. Þar dvaldi ég í um viku og hékk með Hauki Má og fleira góðu fólki – og afrekaði strax fyrsta kvöldið að láta mann, sem sagðist vera hælisleitandi (en var samt frá Evrópusambandslandi, svo það meikaði ekkert sens, hann var frekar fullur og ringlaður) ræna af mér símanum (iphone sem ég hafði keypt í Da Nang árið áður). Í einhverju sturluðu þrjóskukasti fór ég strax daginn eftir og keypti nýjan. Sem engum hefur enn tekist að stela. Það hefur að vísu held ég ekkert verið reynt.

Nokkrum dögum síðar fór ég svo í minningarathöfnina. Hún var að mörgu leyti vinaleg en bæld. Að öllum líkindum framdi vinkona mín sjálfsmorð. En það var ekki nefnt og þegar við spurðum um dánarorsök var okkur svarað á þá leið að viðkomandi „vildi ekki taka þátt í slúðri um það“. Vinkona mín var þess konar manneskja – austurþýskur nagli – sem hefði getað dáið af nokkrum ólíkum orsökum og það sem hvarflaði að mér fyrst þegar ég heyrði tíðindin var lungnakrabbi (hún keðjureykti), bílslys (hún keyrði helst ekki hægar en 200 km/klst) eða sjálfsmorð, því hún var af ofsafenginni skapgerð. Og það hvarflaði að mér þarna í minningarathöfninni – sem var að sönnu falleg – að það sem vantaði í félagsskapinn væri no bullshit hömluleysið sem einkenndi vinkonu mína. Að hún hefði verið aflið í lífi þessa fólks sem sagði hlutina umbúðalaust og nú þegar hún var látin væri enginn eftir sem gæti séð til þess að aðstandendur hennar kæmust ekki upp með að væflast í kringum erfiðan sannleika einsog kettir í kringum heitan graut. En svo nefnir maður víst ekki snörur í húsum hinna hengdu.

Berlínarháski II: Forréttindi hvíta mannsins og ofsi nauðgunarlyfja

Nokkrum dögum síðar var svo ljóðakvöld á knæpu í borginni. Margir Íslendingar á listanum – en allir lásu á ensku. Ég las úr Óratorrek – sem kemur út í vor – og var tekinn á eintal á eftir vegna þess að ég tæki ekki í textanum nægt tillit til forréttinda minna sem hvítur karlmaður. Sem ég geri ekki, að vísu, nema kannski einmitt til að gera það ekki – ég held að bókmenntir eigi ekki að vera low-impact heldur high-impact og í þeirri afstöðu er vissulega fólgin ákveðin grimmd og ákveðið tillitsleysi. Ég velti þessu að vísu oft fyrir mér – grimmdinni og tillitsleysinu – en bara til þess að átta mig á virkni þeirra, ekki til að leysa þær upp.

Síðla nætur kom í ljós – af ástæðum sem ég tíunda ekki hér – að ég gat ekki gist hjá Hauki Má um nóttina. Þá fékk ég gistingu hjá öðru vinafólki mínu en áður en þangað var haldið komum við við á annarri knæpu til að fá okkur einn lokadrykk fyrir heimför. Þar var okkur boðið upp á staup – ég man ekki hver bauð, held það hafi verið barþjónninn en eftir á að hyggja hljómaði það eitthvað ósennilega, svona þegar ég fór að púsla kvöldinu aftur saman. Nema hvað. Við vinur minn kláruðum úr okkar staupum en vinkona mín, kærasta vinarins, kláraði ekki úr sínu – á leiðinni út stakk ég úr því að hennar boði. Eftir þetta man ég ekki neitt og ekki hún heldur. Vinurinn sagði að í leigubílnum hefði kærastan hans farið að haga sér mjög furðulega sem endaði með því að þau fóru að rífast og við fórum öll út. Eftir nokkurt rifrildi fór hann svo aftur upp í leigubílinn og skildi okkur eftir. Hana rámar í að hafa heyrt mig kalla á sig – en annars fannst hún stjörf í hnipri í garði í nágrenninu um 40 mínútum síðar. Það var farið með hana á sjúkrahús og samkvæmt blóðprufu var hún með fljótandi alsælu í blóðinu.

Ég man ekkert fyrren upp úr níu um morguninn. Þá rankaði ég við mér í neðanjarðarlestinni. Ég reyndi að komast heim (til Hauks Más) en gat einhvern veginn ekki fundið réttu lestina. Á einhverjum tímapunkti áttaði ég mig á því að þetta gengi ekki – ég var ekki í neinu ástandi til að rata neitt, og hafði vit á að skilja það – og fór í hraðbanka til að taka út pening fyrir leigubíl. Þar sem ég stóð við hraðbankann bankaði vingjarnleg kona í bakið á mér; ég sneri mér við og hún rétti mér passann minn, sem ég hafði haft í rassvasanum og hafði dottið í gólfið. Ef ég hefði ekki verið svona hellaður hefði ég sennilega hlegið (enda hefði týndur passi kostað mig fjórða neyðarpassann á innan við ári).

Nokkrum dögum síðar, þegar ég var kominn í faðm fjölskyldunnar í Svíþjóð, og búinn að tala við vini mína um hvað hafði gerst (það var s.s. nauðgunarlyf í staupinu sem okkur var gefið), kom mér til hugar að kíkja í símann minn því það er skrefamælir í honum. Þá kom í ljós að ég hafði alls ekki sofnað í neðanjarðarlestinni heldur farið í 5 klukkustunda 15 kílómetra göngutúr um Berlínarborg. Það eru ekki gloppur í göngutúrnum fyrren alveg undir restina, þegar ég hefði byrjað að kíkja í lestarnar. Og ég man ekki neitt. Ekki bofs. Ekki óljóst neitt – það er allt gersamlega kolsvart, einsog það hafi aldrei gerst.

Bugaður í Svíþjóð

Ég tók sýklalyfjunum sem ég fékk þarna áður en ég fór frekar illa og var þess utan illa haldinn af mygluofnæmi (það er mygla í húsinu mínu, sem ég hef verið að berjast við í meira en ár). Þegar ofan á það bættist almenn óregla í þessu ferðalagi og ofan hana þetta eiturbrugg var ég orðinn mjög bugaður. Ég hef alveg reynt eitt og annað um ævina en ég hef aldrei fengið jafn svakalegan og langdrægan niðurtúr og eftir þetta nauðgunarlyf. Sennilega er það að einhverjum hluta andlegt líka – en jafnvel einföldustu hlutir voru gríðarþungir. Bara það að standa á fætur eftir morgunkaffið og horfa út um gluggann var einhvern veginn svo yfirþyrmandi að mann langaði að gráta. Þegar mér líður illa reyni ég alla jafna að hreyfa mig eins mikið og ég get – og ef það hefur verið óregla á mér er reglan sú að það sé erfitt að koma sér í gang, hlaupa af stað, en síðustu kílómetrarnir séu góðir. Þá kikkar inn eitthvað endorfín og manni líður aftur vel. En vikurnar eftir þetta var því ekki svo farið – þá var hver kílómetri bara erfiðari en sá á undan og þeir síðustu beinlínis óþolandi þungir.

Fyrstu vikuna vorum við í Västerås en síðan fórum við til mágkonu minnar og fjölskyldu í Rejmyre. Nokkrum dögum síðar fór Nadja á ráðstefnu á suður Spáni og ég var einn með krakkana hjá tengdafjölskyldunni. Einhvern veginn fór allt úrskeiðis í samskiptum okkar – ég var lasinn og að reyna að hvíla mig, en þau stressuð og að vinna mikið og ætluðust til ýmislegs af mér sem ég hafði aldrei lofað að gera. Ég hef stundum tekið að mér eldhúsið þegar ég er hérna en var í engu formi til að gera það – þunglyndur og lasinn. Steininn tók svo úr þegar mágkona mín tilkynnti mér við matarborðið, þegar hún hafði kastað einhverju saman á síðustu stundu, að ég yrði að láta vita ef ég ætlaði ekki að elda (án þess að ég hefði nokkru sinni boðið mig fram). Ég lét gott heita og röflaði bara við Nödju í tölvupósti – beit á jaxlinn, beit í vörina og lét mig hafa þetta, fékk útrás annars staðar. Þegar Nadja kom síðan ákvað hún að konfrontera systur sína – án leyfis frá mér – sem varð til ægilegs rifrildis, sem ég var heldur ekki andlega í stakk búinn til að höndla.

Gangan langa

Ég ákvað að daginn eftir – þegar þau ætluðu öll í Kolmården dýragarðinn – myndi ég fara inn til Norrköping og eiga góðan dag einn með sjálfum mér, ná að vinna svolítið og hreinsa hugann, fyrst mér var líka farið að líða bærilega til heilsunnar. Ég vaknaði seint og teygði mig í símann til að skoða strætisvagnaáætlunina. Rejmyre er nokkur hundruð manna bæjarfélag úr alfaraleið og það fyrsta sem ég uppgötvaði var að það gekk enginn strætó á sunnudögum. Ég spratt á fætur til að semja við fólkið um að ég fengi að sitja með út á næstu strætóstoppistöð en var sagt að það væri alltof langur krókur. Mjög fúll settist ég niður við morgunkaffið og google-mappaði leiðunum tveimur og komst að því að leiðin sem lá framhjá strætóstoppistöðinni var um tveimur kílómetrum lengri en hin. Og snappaði. Mest með sjálfum mér, en snappaði samt og fór í eitthvert heiftarlegasta þrjóskukast sem ég hef tekið síðan ég var þriggja ára.

Þegar þau voru farin gekk ég út á strætóstoppistöð. Tæpa átján kílómetra. Tók strætó til Norrköping og settist á kaffihús í tæpan klukkutíma. Að vísu þurfti ég fyrst að fara og kaupa mér föt því ég hafði svitnað svo mikið á leiðinni að mér var ekki stætt á að setjast neins staðar. Svo át ég ódýra pizzu, tók strætóinn aftur á stoppistöðina og gekk heim – nú í myrkrinu – og var kominn skömmu eftir miðnætti. Sár og þreyttur. Ég hefði ekki ímyndað mér það fyrirfram að það væri svona erfitt að ganga 36 kílómetra – en ég var í sjálfu sér ekki í góðum skóm. En þótt ég væri þreyttur var þetta líka gott – píslargöngur eru hollar þegar maður þarf á þeim að halda.

Og þótt mér hafi ekki tekist að vinna mikið tókst mér svo sannarlega að hreinsa hugann og velta því fyrir mér hvað ég þyrfti að gera í framhaldinu. Daginn eftir stakk ég aftur af til Västerås og var einn þar fram yfir Jónsmessu – við jóga, hlaup, lestur og vinnu – þegar við fórum saman fjölskyldan til Finnlands. Þar héldum við upp á afmælið mitt 1. júlí á einum af mínum eftirlætis stöðum, Linnanmäki tívolíinu. Ég fór í alla rússíbanana með Aram (sem hann mátti fara í) og var meira og minna aftur kominn í lifandi manna tölu. Og árið nákvæmlega hálfnað.

Ég held að seinni hluti ársins hafi verið minna dramatískur en sá fyrri. En ég mundi heldur ekki hvað þetta var allt saman dramatískt fyrren ég fór að skrifa það niður. Það er gott að ég er góður í að höndla drama.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png