Á puttanum með pabba, Labyrinth, 8 1/2, Fíasól í fínum málum og Palimpsest eftir Gore Vidal

Á puttanum með pabba eftir Kolbrúnu Önnu Björnsdóttur og Völu Þórsdóttur fjallar um systkinin Sonju og Frikka. Þau eiga ítalskan pabba sem býr á Sikiley og eru vön að eyða sumrinu með honum. Sá er atvinnulaus leikari og býr hjá mömmu sinni og pabba. Þau eru varla komin til Sikileyjar þegar allt byrjar að fara úr böndunum. Fyrst leggst Bruno frændi þeirra á banasængina svo amma og afi þurfa að fara til hans. Þá fær pabbi þeirra skyndilega hlutverk í bíómynd sem á að taka upp á Spáni – og þarf að losna við gemlingana. Það næst ekki í mömmu og stjúpa en þau kaupa samt miða – þegar ekkert hefur heyrst frá þeim og krakkarnir þurfa að tékka inn í flugið neyðist leikarapabbinn til að fara með börnunum til Íslands að leita að mömmunni. Eina vísbendingin er að hún verður í Hallormsstaðaskógi eftir X langan tíma – en sennilega er hún á ferðalagi um landið. Já og veski pabbans er stolið á flugvellinum í Róm svo þau eru meira og minna peningalaus, á puttanum, upp á náð og miskunn íslenskra og útlenskra túrista komin.

Aram valdi. Þetta var mjög skemmtileg bók – svona road movie klassíker þar sem hver vandræðin reka önnur. Við höfðum kannski sérstaklega gaman af þessu því við sjáum sjálf okkur í mörgu þarna – ferðumst mikið og erum stundum dálítið ringluð og kaotísk (og við Aram höfum ferðast saman á puttanum – þegar hann var sennilega þriggja ára) og svo erum við auðvitað með fætur í ólíkum löndum og ólíkum tungumálum.

***

Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á Labyrinth eftir þá Jim Henson og George Lucas, með David Bowie og Jennifer Connelly í aðalhlutverki. Ég hafði ekki séð hana í þrjátíu ár. En þess má geta að á þeim tíma hefur Jennifer Connelly ekki elst – og áður en hann dó eltist David Bowie ekki heldur (ég hefði átt að nefna það í síðustu færslu, þegar Mr. Bean var til umfjöllunar, að skrítnasta dæmið um mann sem eldist ekki er auðvitað Rowan Atkinson). Þau hafa sennilega dottið í æskubrunn við gerð myndarinnar.

Myndin fjallar um unga stúlku sem er látin passa litla bróður sinn. Hún þolir það ekki og óskar þess upphátt að tröllin (eða svartálfarnir) taki hann. Sem þau svo gera. Stúlkan hefur 13 klukkustundir til að komast í gegnum völundarhús tröllanna, að tröllakastalanum þar sem tröllakóngurinn David Bowie ræður ríkjum, annars verður bróðir hennar tröllabarn um ævi og aldur. Í völundarhúsinu mæta henni margar hindranir en þar eignast hún líka vini – Hoggle (sem mótsvarar fuglahræðunni í Galdrakarlinum í Oz),  Lúdó (ljónið) og Sir Didimus (tinmaðurinn). Sennilega má nú rífast um það hver er hver – en fjórmenningarnir saman minna sannarlega á sams konar klíku í Oz.

Myndin er talsvert kynferðisleg – og yrði alveg áreiðanlega ekki gerð eins í dag. Til dæmis er sena þar sem ýjað er að því að Bowie og Connelly hefji ástarsamband (eftir að hann lyfjar hana ansi hressilega) – en þótt bæði séu í sjálfu sér ungleg þá er Bowie augljóslega fullorðinn, á mínum aldri þegar myndin er gerð, en Jennifer er sextán ára.

Svo má velta fyrir sér boðskapnum. Það er alltaf gaman, sérstaklega í barnaefni. Ung kona hafnar barnauppeldi og er refsað fyrir það – barnið steypist í glötun vegna eigingirni hennar og sjálfselsku. Hún sigrast á vonda karlinum (sem mætti segja að standi fyrir rísandi heterókynhvöt hennar – hann er mjög fallískur, í níðþröngum galla sem leynir engu, og sífellt að leika sér með kúlurnar sínar og sprotann sinn) með því að æpa á hann að hann ráði ekki yfir sér. Þá hverfur svartálfaheimurinn og hún kemst aftur heim með litla bróður sinn í tæka tíð áður en foreldrar hennar birtast á ný (hér mætti jafnvel íhuga sagnaminni úr bandarískum unglingamyndum þar sem unglingsstúlkur bjóða til sín strákum heim í kelerí þegar þær eru að passa – og strákurinn þarf að hverfa áður en foreldrarnir koma heim). Smáborgaralífinu og skírlífi stúlkunnar er borgið.

Myndin er auðvitað stórfengleg og klassíker. Dúkkurnar frábærar og eldast vel, hvað sem líður tækniframförum. Bowie og Connelly eru góð í sínum hlutverkum. Það er reyndar – merkilegt nokk – kannski helst að tónlistin sé frekar slöpp. Bowie gerir hana alla og er bara alls ekki í neinu þrumustuði.

***

Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á 8 1/2 eftir Fellini. Ég valdi og hafði aldrei séð hana áður og vil sjá hana fljótt aftur. Hún gæti vel orðið ein af mínum uppáhalds. Skók mig, í allri sinni tilgerð. Samt veit ég eiginlega ekki hvað ég á að segja um hana. Hún fjallar um leikstjóra sem er að reyna að gera bíómynd – hann kljáist við sköpunargáfu sína, finnst hann sjálfur vera tilgerðarlegur og er tilgerðarlegur og bíómyndin sem við horfum á og fjallar um hann er tilgerðarleg. En samt snilld. Hann er líka að kljást við kvensemi sína og löngun í ungar konur, frillur, og gerir stólpagrín að þessum þrám án þess að það dragi úr raunveruleika þeirra eða tilvistarangistinni sem er fólgin í þeim. Þá eru líka í henni átök við kaþólska trú. Allt hangir þetta einhvern veginn saman. Marcello Mastroianni leikur leikstjórann og manni má alveg skiljast að hlutverkið sé sjálfsævisögulegt (Fellini hafði gert sex bíómyndir í fullri lengd, tvær stuttar og eina í samstarfi við annan – 8 1/2 er áttundaoghálfa bíómynd Fellinis).

Fellini reynir að vera heiðarlegur og mistekst en honum mistekst heiðarlega. Hann níðir sig og hæðir sig en gerir það aldrei án þess að taka sig líka alvarlega. Átökin eru sviðsett en þau eru líka raunveruleg. Ég ímynda mér að það hafi verið tilfinningalega brútalt að gera þessa mynd.

***

Fíasól í fínum málum er, einsog titillinn gefur til kynna, hluti af ritröðinni um Fíusól eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur. Aino valdi. Hún þekkir Fíusól vel af leikskólanum en við höfum ekki lesið hana saman áður. Bókin samanstendur af nokkrum – sjö eða átta – vinjettum um sjö ára stúlkuna Fíusól (sem ég held að hafi staðið einhvers staðar að heiti Soffía Sóley fullu nafni). Hún á tvær eldri systur, Pippu og Biddu, og alls óskilda foreldra. Fíasól er „ákveðin ung kona“ þegar vel lætur og frekjudós þegar illa lætur. Niðurstaða flestra vinjettanna er að Fíasól sé í vondum málum – hún stelur t.d. úr sjoppu og flytur að heiman í skúr sem vinur hennar byggði o.s.frv.  En endar nú samt á því að hún sé í fínum málum.

Almennt mætti segja að Fíasól lifi í afar vernduðu umhverfi (klassísku íslensku millistéttarheimili) þar sem hið smáa verður oft mjög stórt og alvarlegt. Stemningin minnir að einhverju leyti á bækur Guðrúnar Helgadóttur – nema að þar eru persónur auðvitað ekki í jafn vernduðu umhverfi (og oft mjög berskjaldaðar). Aram hafði á orði að Fíasól notaði skrítin orð af sjö ára stelpu að vera – hún er svolítið forn í máli og kannski þess vegna sem hún minnir mann á Lóu-Lóu. Ég mótmælti reyndar – því þótt það sé satt þá hef ég bæði hitt börn sem eru undarlega forn í máli og svo er ekkert að því þótt sögupersónur séu ekki alveg einsog fólk er flest.

Aino var mjög hrifin af bókinni, einsog hinum í flokknum. Við áttuðum okkur samt ekki alveg á því hvað hún væri stutt. Hún dugði okkur bara í tvö kvöld.

***

Palimpsest er nafnið á æviminningum Gore Vidal. Palimpsest er skv. Snöru „uppskafningur (handrit þar sem texti hefur verið skafinn burt og annar ritaður í staðinn)“ og verður Gore að myndlíkingu fyrir virkni minnisins. Hvernig við skrifum nýjar minningar yfir þær gömlu í hvert sinn sem við rifjum þær upp.

Gore segir sögu sína ekki línulega heldur ryðst fram og aftur frá fyrstu 40 árum ævinnar að nútímanum (útgáfutíma bókarinnar: 1995). Og vantar þar með í hana til dæmis allt um það þegar hann skrifaði og gaf út Myru Breckinridge, sem olli mér vonbrigðum, sem og starfi hans í Víetnam hreyfingunni og afstöðu til hippismans og femínismans og róttækninnar.

Auk þess að flakka um í tíma fjallar hún mestmegnis um annað fólk en Gore sjálfan – það er mikið af slúðri og alls konar sögum og uppgjörum og Gore er auðvitað skemmtilega kvikindislegur, einsog hans var von og vísa. Það líða ábyggilega aldrei meira en þrjár síður milli þess sem hann hendir inn einhverju um hvað Truman Capote hafi verið mikið fífl.

Þótt bókin fjalli ekki um Gore þá er persónuleiki hans í frásögninni – þessa bók hefði enginn annar en hann getað skrifað og enginn skrifað hana einsog hann skrifar hana. Gore er algert kúltúr- og valdabarn frá fæðingu – hann og Jackie Kennedy Onassis áttu sama stjúppabba og hann er umkringdur heimsfrægu fólki frá barnæsku. Einn kaflinn hefst á orðunum „Það er alltaf dálítið vandræðalegt þegar náinn æskuvinur eða kunningi verður Bandaríkjaforseti“. Ekki bara stundum, vel að merkja – ekki í annað hvert skipti eða svo. Það er alltaf vandræðalegt.

Talsverðu púðri eyðir hann í að ræða kynlíf sitt og hefur þó á orði að það sé eiginlega ekki í frásögur færandi. Hann stundar nær einvörðungu einnar nætur kynni og nær einvörðungu með karlmönnum, alls ekki vinum eða vinkonum – en finnst samt of heftandi að tala um sig sem samkynhneigðan – og hefur alls konar kenningar um þetta líf sitt. Á Wikipediu er hann kenndur við Anaïs Nin en hann kannast sjálfur ekki við það. Þá segist hann á tímabili sofa hjá manni á dag og vera komin vel yfir sitt fyrsta þúsund 25 ára og vel keppnishæfur við kvennamenn á borð við Jack og Bobby Kennedy (sem ku álíka graðir). Hann hefur ímugust á allri skinhelgi í kringum kynlíf og myndi sennilega eipsjitta á metoo-hreyfinguna ef hann væri enn á lífi (ég er reyndar ekki viss um að hann gæti eipsjittað – en hann myndi segja eitthvað mjög snappí). Þegar bókin er gefin út er mikið rætt um kynlíf Clintons í fjölmiðlum og honum finnst nú ekki mikið til þess koma að „mellum sé stillt upp í sjónvarpinu á besta áhorfstíma til að ræða lim forsetans“ og mikla afturför frá því þegar rifist var um stefnumál.

Það sló mig einhvern tíma við lesturinn að þegar skilin milli bóhemíu og borgaralegs lífs voru skarpari – áður en hipparnir komu til sögunnar og vildu brjóta niður múrinn – þá hafi lífið í bóhemíunni verið talsvert villtara en það varð nokkurn tíma í hippakommúnunum (og hvað þá síðar). Ef þú nenntir að standa í því að fá sýfilis og lekanda og lenda í ólöglegum fóstureyðingum og/eða barneignum – og stóð á sama um fnæsið í borgarastéttinni – þá bara reiðstu eins mikið og víða og þér sýndist. Gore fullyrðir líka að kasúal samkynhneigð hafi verið miklu algengari meðal karla – t.d. að nær allir hafi sogið einhvern í herskyldunni og það hafi verið mjög lítið tabú (nema bara svona af því að lauslæti væri rangt). Þetta heyrir saman við lýsingar sem ég þekki úr ævisögum bítskáldanna – sem Gore umgekkst nokkuð (en las lítið; helst hann hafi verið hrifinn af skáldsögum Burroughs, og svo fagnar hann On the Road síðar, en fílaði ekki þegar hún kom út).

Allavega virkar samtíminn mjög móralskur og leiðinlegur í lýsingum Vidals á fortíðinni. En þannig er það kannski alltaf.

***

Gítarleikari vikunnar er Lightnin’ Hopkins.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png