Á fjarlægum ströndumNadja gaf mér bókina Á fjarlægum ströndum – Tengsl Spánar og Íslands í tímans rás. Hún kvartar reglulega undan því að það sé erfitt að gefa mér bækur af því ég bæði kaupi mér margar bækur og fæ margar gefins og svo eru margar bækur sem ég á sem koma aldrei heim – eru bara á skrifstofunni – svo það er ekki einu sinni auðvelt að athuga hvað ég eigi fyrir. Á fjarlægum ströndum er sennilega ekki bók sem ég hefði keypt mér sjálfur en svo er nánast einsog hún hafi verið skrifuð fyrir mig. Mikið af þessari sögu á sér stað hér í næsta nágrenni – baskavígin auðvitað, og orðasafnagerðin, en líka saltfiskverslunin (að mjög miklum hluta). Fyrir utan kafla um það eru margir kaflar um bókmenntir – þar á meðal grein eftir manninn sem hefur þýtt bæði Hans Blæ og Illsku, Enrique Bernárdez, og grein um spænskan gítar og Ísland þar sem móðurbróðir minn, Tryggvi Hübner, kemur meðal annars lítillega við sögu (hann lærði gítarleik á Spáni). Þá er grein um sólarlandaferðir Íslendinga til Spánar en mér telst til að ég hafi sjálfur farið í einar níu slíkar – þriggja vikna langar – á gullöld slíkra ferða, frá 1984 til 1994 (eitt árið fórum við til Ítalíu). Bækur, matur, gítarleikur, Vestfirðir, tungumál, ferðalög, sólarlandarómantík. Þetta eru bara öll áhugamálin mín í einni bók. Sem ég vissi ekki einu sinni að væri til fyrren ég opnaði pakkann.

***


Ég ætla að blogga miklu meira á næsta ári. Og ég ætla að vera minna á samfélagsmiðlum. Og draga úr fréttalestri líka. Og spjallforritahangsi. Hafa símann bara í flugmóð. 2022 verður árið þar sem ég held þræði. Svona mestmegnis að minnsta kosti.


Það var útlit fyrir að bókmenntaflakkið væri að byrja aftur. Ég á að fara til Frakklands í febrúar. Mér fannst nú alveg garanterað að ég kæmist þegar mér var boðið en ég get ekki sagt ég sé jafn sannfærður núna. Annars er nú allt mjög rólegt í útlandadeildinni. Ég fylgdi Brúnni aðeins eftir í Svíþjóð en náði ekkert að elta Hans Blæ til Frakklands eða Spánar eða Óratorrek til Grikklands og það hefur heldur ekkert annað bæst við – a.m.k. ekki sem kemur út í ár (það er von á ljóðasafni á finnsku 2023 líklega). Það er reyndar einhver makedónsk Illska í pípunum sem ég veit ekkert hvenær kemur út – hún átti að koma fyrir löngu en frestaðist. Það væri gaman að fara til Makedóníu.


En það væri gaman líka að fá bara ró í kollinn sinn.

71 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png